Online

Welcome

Chatbox

Poll

Ómar Ragnarsson og súkkurnar hans


Við hjónin eigum samtals sex Súkkur og fyrr á árum átti ég auk þess tvo Foxa.
Nú eru aðeins tvær þeirra á númerum.

Elsta Súkkan okkar er svartur Samurai árgerð 1986 sem þjónaði mér dyggilea allt frá því ég fékk hann fyrir sjö árum. Hans var getið í grein um Kárahnjúkavirkjun í National Geographic sem svefnstaðar minn, því að þær voru ekki ófáar næturnar sem ég gisti í honum.
Undir honum eru ástralskar fjaðrir sem gerðu kleyft að koma undir hann 31 tommu dekkjum án þess að hreyfa neitt við fjöðrun eða undirvagni til þess að viðhalda jafnvæginu í bílnum.
Það tel ég mikils virði því að óbreytt er Súkkan snilldarhönnun, þar sem fjaðrirnar og fjaðrahengslin eru svo þunn, að þau skaga ekki meira niður úr hásingunum en demparafestirar á jeppum, sem eru með fjaðrir ofan á hásingu.
Ég tel Foxinn best hannaða jeppa heims, en gamli Rússajeppinn er næstur honum.
Þegar horft er aftur eftir undirvagni á óbreyttum Fox "flútta" drifkúlur og svinghjól algerlega og lægstu punktar eru á hæð við öxlana.
Í hitteðfyrra fór pakkning á gírkassa og öll olía fór af kassanum svo að það fór að syngja og hvína í öllu draslinu.
Ég átti ekki fyrir viðgerð en tókst að aka bílnum að vild með því að vera sem mest í 4. gír á lága drifinu eða háa drifinu, því að þá er hlutfallið 1:1 og enginn söngur.
Hægt er að skipta á milli 4. gírs á háa og lága með því að tvíkúpla eins og í gamla daga.
Vegna þess að ekkert lak af gírkassanum lengur, öll olía farin, flaug hann í gegnum skoðun.
Það er búið að keyra kvikindið 250 þúsund kílómetra og allt orðið mjög slitið en gengur samt þótt hljóðið í vélinni sé að verða líkt því sem er í dísilvél.
Eitt sinn kom ég honum alls ekki í fjórhjóladrifið vegna slits, en svo hrökk það allt í einu í lag og síðan passa ég mig á að skipta aldrei þar á milli nema varlega í kyrrstöðu.
Minnsta Súkkan mín er rauður Fox 410 árgerð 1986, minnsti jöklajeppi á Íslandi. Ég datt niður á þennan bíl fyrir fimm árum þar sem hann stóð og búið var að setja undir hann loftpúðafjöðrun og Suzuki Swift GTI vél í hann.
En þeir sem breyttu honum gleymdu því að kveikjan á GTI-vélinni stendur aftur úr vélinni þannig að það varð að taka úr hvalbaknum til þess að hún kæmist fyrir.
Fyrir bragðið varð að fjarlægja miðstöðina úr bílnum og þeir hættu við áður en pústkerfi var komið undir.
Snjall hagleiksmaður á Súkkuverkstæðinu í Skeifunni leysti málið fyrir mig með því að setja einfalda smámiðstöð í bílinn sem bara dælir upp á framrúðurnar.
Kemur ekki að sök því að bíllinn er svo lítill að þetta nægir.
Síðan var sett einfaldasta gerð af pústkerfi undir hann og með því að nota sjö tommu felgur var hægt að setja undir hann 32 tommu dekk án þess að setja á hann brettakanta og þar með var hann sannanlega minnsti jöklajeppi landsins því að við vigtun reyndist hann aðeins 950 kíló og flotið á þessum dekkjum á við það besta sem gerist á jöklajeppum.
Þetta kom greinilega í ljós í tveimur ferðum um Vatnajökul sem ég fór á Súkkunni með Jöklarannsóknarfélagi Íslands, hinni fyrri 2005 og hinni seinni í júníbyrjun í sumar.
Með 101 hestafala GTI var hann eins og raketta og gef engum eftir.
Drifin eru úr Fox 410 og því mjög lág, og gírkassinn er úr Fox 413 með fimm gírum og lægri fyrsta gír en 410.
Niðurstaðan eru fullkomin hlutföll, nógu lágur lægsti gír og hæfilega hár efsti gír.
Í ferðinni í sumar var farið í Grímvötn, á Grímsfjall, Kverkfjöll, Gjálp og Bárðarbungu og ferðafélagarnir trúðu ekki sínum eigin augum við að sjá hve lítið Súkkan markaði í snjóinn eins og sést vel á meðfylgjandi myndum.
Færið var misjafnt og fyrirfram kveið ég mest fyrir krapanum neðst á Tungnaárjökli sem yrði mér erfiðari en stóru drekunum.
Þegar upp var staðið stóðu leikar 3:3, ég var dreginn þrisvar og ég dró aðra þrisvar !
Í byrjun var yfirhitun helsta vandamálið. Vélin er ekki gerð fyrir akstur í botni á nánast engum hraða.
Ég leysti það á köflum á leiðinni uppeftir með því að aka með húddið uppi og kíkja út um hliðargluggann, en síðan datt mér það snjallræði í hug að taka húddlokið af og setja það inn í bílinn!
Það gerbreytti kælingunni að heitt loftið frá yfirborði vélarinnar streymdi óhindrað upp í kuldann og bíllinn þar með orðinn loftkældur að hluta til !
Tvær af meðfylgjandi myndum eru teknar í ferð á Bárðarbungu þar sem þeir stóru voru að festa sig en Súkkan flaut eins og korktappi ofan á snjónum.
Ég varð samferða Landcruiser niður af jöklinum og á myndinni sést aðdragandi þess að ég verð að kippa í Krúserinn skömmu eftir að hann hafði kippt í mig.
Í sumar brontaði kambás í GTI-vélinni og litli rauður er því stopp.
En ég lumaði á svörtum Geo Tracker stuttum blæjubíl, sem mér hafði áskotnast fyrir rúmum þremur árum og hafði geymt númerslausan suður í Kapelluhrauni.
Það reyndist margfalt ódýrara að vekja hann upp með smávægilegri viðgerð á pústi og taka hann í notkun á meðan litli rauður hvílir sig og maður svipast um eftir Suzuki Swift vél í hann.
Sá svarti er breyttur fyrir 35 tommu dekk og á þeim flýtur hann á við allra léttustu stóru bílana.
Eini gallinn er að á þessum dekkjum er hann heldur hágíraður en á móti kemur að flotið er einstakt og eyðslan aðeins um 10 lítrar á hundraðið.
Helga Jóhannsdóttir, konan mín, á sex ára gamlan Suzuki Grand Vitara og hef ég oft hælt henni fyrir það að hafa svo góðan smekk því að þetta var hennar persónulegi óskabíll.
Með smáhækkun á fjöðrun og 225/75 - 16 dekkjum fer svona jeppi það sem venjulegir óbreyttir alvörujeppar fara, er hæfilega lipur og eyðslugrannur og hefur reynst alveg einstaklega vel.
Ég er jafnaldri Cliff Richards og syng því við raust íslensku útgáfuna mína af "Living doll" þegar vel liggur á mér undir stýri á Súkkunni, en hún heitir "Gúmmídúkkan" og byrjar svona:
Ég fékk mér allra bláeygustu og bestu gúmmídúkkna.
Blíð hún var og minnti mig á skæslegustu hjúkkuna.
Ég tók hana í bíltrúr, já, ég bauð henni´upp í Súkkuna....















Súkkan er á flottum stað, á Vatnajökli á leið niður í Kverkfjöll
með Herðubreið i baksýn.

Comments
hilmar
01 Nov : 23:42
Reply to this
Snilld, takk fyrir þetta.
Brynjar
02 Nov : 02:06
Reply to this
flottar súkkur. en mér langar að sjá myndir og vélarupplýsingar um Geo trackerinn.

ég veit líka um suzuki swift gti vél til sölu ef áhugi er.
tommi_k
25 Nov : 19:06
Reply to this
Brynjar þú mátt upplýsa mig meira um þennan gti mótor í e-maili ef þú getur - tommifreerider©hotmail.com
einarkind
02 Nov : 18:13
Reply to this
þakka þér kærlega fyriri þetta flott grein
birgir björn
17 Nov : 04:28
Reply to this
flott grein, gaman af þessu, og flottar myndir af flottum bíl
gunnarja
16 May : 15:50
Reply to this
Flott grein. Man eftir í Top Gear þætti þá var kælingarvandamálið með vél í Range Rover leyst með því að saga gat í húddið á honum svo hægt var að horfa gegn um er verið er að keyra með húddið opið, gæti kannski verið lausnin fyrir Ómar (væri hægt að hafa pexigler í gatinu),þá þarf hann ekki að taka húddið af ef hann fer hitna.

Comments are locked

Nýtt á spjallinu

�essi s��a er keyr� � E107 vefumsj�narkerfinu.